Lög um listmunauppboð o.fl.1)
1987 nr. 36 27. mars
1)Falla úr gildi 1. janúar 1999 skv. l. 28/1998, 26. gr.
1. gr. Viðskiptaráðherra skal heimilt að veita þeim sem verslunarleyfi hafa og til þess teljast hæfir
að hans dómi leyfi til að selja sjálfir á frjálsu uppboði, hvar sem er á landinu, málverk, myndir, listmuni, bækur, frímerki og aðra muni sem söfnunargildi hafa.
Uppboðsleyfi er einnig heimilt að veita félögum eða öðrum lögaðilum sem verslunarleyfi hafa og til þess teljast hæfir.
Leyfin eru ekki tímabundin en þau má afturkalla ef leyfishafar þykja ekki lengur uppfylla hæfisskilyrði. Eldri leyfi skulu halda gildi sínu og teljast ótímabundin eftir gildistöku laga þessara.
Leyfisgjald, er renni í ríkissjóð, skal vera helmingur af gjaldi fyrir smásöluleyfi.
2. gr. Þegar sérstaklega stendur á má veita aðilum leyfi til að halda lokað uppboð í því skyni að
styrkja viðurkennda líknarstarfsemi og kirkjulega starfsemi, menntir, vísindi og menningu. Uppboðsstjóri skal þó hafa verslunarleyfi jafnaðarlega og teljast hæfur til uppboðshaldsins. Ekki skal innheimta leyfisgjald.
3. gr. Sölugjald skal ekki leggja á málverk, myndir og listmuni heldur 10% gjald er renni til
listamannanna eða erfingja þeirra samkvæmt höfundalögum. Sé höfundaréttur fallinn niður eða fénu verður ekki ráðstafað rennur það til starfslauna handa myndlistarmönnum. Menntamálaráðherra getur sett nánari reglur1) um ráðstöfun gjaldsins að höfðu samráði við Samband íslenskra myndlistarmanna.
1)Rg. 244/1993.
4. gr. Leyfishafar eða uppboðsstjórar mega hvorki gera sjálfir boð á uppboði né láta aðra gera það
fyrir sína hönd.
5. gr. Leyfishafar skulu kynna uppboðsskilmála skriflega og skulu þeir lesnir í upphafi uppboðs. Í uppboðsskilmálum skal gera grein fyrir gjöldum er leggist ofan á söluverð,
greiðsluskilmálum, ef ekki er um staðgreiðslu að ræða, og því hvenær ábyrgð á seldum mun flyst úr hendi seljanda til kaupanda.
Kaupandi uppboðsmunar getur ekki borið fyrir sig galla á seldum mun nema hann svari ekki
til þess heitis er hann var auðkenndur með við söluna, seljandi hafi haft svik í frammi eða almennt sé talið óheiðarlegt að skjóta sér undan ábyrgð.
Þegar uppboð er opið skulu munir vera til sýnis og skoðunar í hæfilegan tíma sé þess kostur.
6. gr. Brot á lögum þessum varða sektum nema þyngri viðurlög liggi við samkvæmt öðrum lögum. Með brot skal farið að hætti opinberra mála.
7. gr. Í reglugerð1) má setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.
1)Rg. 244/1993.
8. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi …